Var gróflega misboðið

Frá viðureign Turda og Vals á sunnudaginn.
Frá viðureign Turda og Vals á sunnudaginn. Ljósmynd/Mircea Rosca

Valsmenn hafa sent frá fréttatilkynningu í kjölfarið á leik þeirra gegn rúmenska liðinu Turda í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik en eins og frægt er orðið voru Valsmenn hreinlega flautaðir út úr keppninni af tékknesku dómurunum sem dæmdu síðari leik liðanna um nýliðna helgi.

Fréttatilkynningin er svohljóðandi:

„Vegna umfjöllunar fjölmiðla og umræðu um skrautlegan undanúrslitaleik Vals og Potaissa Turda í Rúmeníu síðastliðinn sunnudag, vill stjórn handknattleiksdeildar Vals koma eftirfarandi á framfæri.

Stjórn handknattleiksdeildar Vals hefur sett málið í viðeigandi farveg í samstarfi við HSÍ og lögfræðing á vegum félagsins. Mun það nú verða skoðað af þar til bærum aðilum, en það er ljóst að félagið mun a.m.k. senda frá sér formlega kvörtun vegna þeirra aðstæðna sem liðinu voru skapaðar í Rúmeníu í umræddum leik. Hvort og með hvaða hætti kæra verður sett fram verður metið af aðilum sem hæfastir eru til slíks.

Leikmönnum, þjálfurum og öllum aðstandendum liðsins var gróflega misboðið og er það skylda okkar að láta í okkur heyra þegar slíkt á sér stað. Við hvetjum alla sem bera hag íþróttarinnar fyrir brjósti til að deila myndskeiðum úr leiknum og vekja þannig athygli á málinu á alþjóða vettvangi.

Að sama skapi er mikilvægt að leikmenn, þjálfarar og aðrir sem að liðinu standa fái nú tækifæri til að einblína á verkefnið hér heima, þar sem liðið er í baráttu í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.“

F.h. stjórnar hkd Vals

Hörður Gunnarsson

Formaður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert