Bjarki Már Gunnarsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson munu yfirgefa þýska B-deildarliðið Aue eftir tímabilið.
Þetta kemur fram á vef félagsins í dag þar segir að Bjarki hafi af persónulegum ástæðum kosið að halda heim á leið en hann er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Makedóníu í Skopje annað kvöld og í Laugardalshöllinni á sunnudaginn í undankeppni EM.
Sigtryggur Daði er sagður ætla að ganga í annað þýskt lið en samningur hans við Aue rann út um mánaðarmótin. Sigtryggur Daði, sem er sonur Rúnars Sigtryggssonar, þjálfara Balingen, hefur farið mikinn með liðinu síðustu vikurnar og hefur raðið inn mörkum með því.