Stephen Nielsen spilar sinn fyrsta mótsleik fyrir íslenska karlalandsliðið í handbolta á morgun þegar það mætir Makedóníu í Skopje í undankeppni EM.
Það á reyndar eftir að koma í ljós hvort og hve mikið hann kemur við sögu í leiknum, en Stephen kom inn í hópinn í stað Arons Rafns Eðvarðssonar sem glímir við meiðsli.
Stephen náði tveimur æfingum í gær hér í Grosswallstadt í Þýskalandi og stóð sig vel, en þessi 32 ára gamli markvörður ÍBV á að baki einn vináttulandsleik sem var gegn Portúgal í ársbyrjun 2016, skömmu eftir að hann fékk íslenskan ríkisborgararétt.
Eftir góðan undirbúning í Grosswallstadt síðustu tvo daga flaug íslenska liðið af stað til Skopje nú í morgunsárið, með viðkomu í Ljubljana í Slóveníu. Leikurinn við Makedóníu hefst kl. 18 að íslenskum tíma, eða kl. 20 að staðartíma, annað kvöld. Leikmenn fá svo lítinn tíma til að hvílast því að strax um miðja nótt eftir leikinn halda þeir af stað til Íslands og fljúga þá aftur í gegnum Ljubljana og í gegnum Brussel. Seinni leikur Íslands og Makedóníu er svo í Laugardalshöll á sunnudaginn.
Ísland og Makedónía eru með 2 stig hvort í 4. undanriðli, rétt eins og Tékkland og Úkraína sem mætast í Úkraínu í kvöld. Síðustu leikir Íslands í undankeppninni eru svo gegn Tékkum og Úkraínumönnum í júní, en tvær efstu þjóðir riðilsins komast á EM sem fram fer í Króatíu í janúar á næsta ári. Ísland hefur átt fast sæti í lokamótum EM á þessari öld, sem sagt verið með á öllum níu mótunum frá og með árinu 2000.