Janus Daði Smárason fékk góða eldskírn í janúar þegar hann lék á sínu fyrsta stórmóti með íslenska landsliðinu í handbolta. Í framhaldi af mótinu fór hann frá Haukum til Álaborgar og hefur staðið í ströngu í dönsku úrslitakeppninni, eftir að hafa orðið deildarmeistari með liðinu.
Janus var léttur í bragði eftir æfingu landsliðsins í Skopje í dag en þar mætir liðið Makedóníu á morgun kl. 18, í afar mikilvægum leik í undankeppni EM:
„Maður er búinn að vera frekar spenntur. Maður hefur heyrt að það sé helvítis fjör hérna í Austur-Evrópunni og það verður gaman að fá að upplifa það,“ sagði Janus hress, í Boris Trajkovski höllinni þar sem leikurinn fer fram.
„Þetta snýst bara um að reyna að ná aftur upp varnarleiknum sem við náðum á HM því hann var mjög góður, og svo höfum við skerpt á hinu og þessu í sókninni,“ sagði Janus um undirbúninginn síðustu daga. Þessi 22 ára gamli leikstjórnandi leikur nú sinn 12. A-landsleik og meira gæti mætt á honum en ella eftir að Gunnar Steinn Jónsson sneri sig á ökkla á æfingu í dag.
„Það var eitthvað um meiðsli í kringum HM og maður kom svolítið óvænt inn í þetta og fékk töluvert að spila. Það verður bara að koma í ljós hvernig þetta verður núna. Ég get vonandi komið eitthvað inn og reynt að nýta mína eiginleika inn í heildarpakkann. En ég er dálítið nýr í þessu og maður þarf hægt og rólega að koma sér inn í þetta áfram,“ sagði Janus.
Eins og fyrr segir varð hann deildarmeistari með Álaborg í vor, undir stjórn Arons Kristjánssonar, og liðið er komið í undanúrslit úrslitakeppninnar. Janus kveðst ánægður með tímann í Danmörku eftir að hann yfirgaf Hauka í vetur:
„Það hefur gengið nokkuð vel. Við lentum reyndar í smábasli í úrslitakeppninni en náðum að græja það í lokin og komast í undanúrslitin. Svo er bara æðislegt að komast í aðeins „stærra“ umhverfi og spila við aðeins betri gæja. Ég hef gert dálítið af því að leysa af í hægri skyttu, því við erum bara með einn örvhentan. Ég fæ alla vega 20 mínútur í leik, og svo fer það bara eftir því hvernig leikurinn þróast. Það var ágætt að fá strax ákveðið hlutverk, og geta svo byggt ofan á það. Að sama skapi verð ég svo í sumar hugsaður meira á miðjunni hjá liðinu,“ sagði Janus, sem fylgdist vitaskuld áfram með gengi sinna félaga í Haukum eftir að hann hélt til Danmerkur, og sá þá falla úr leik í 8-liða úrslitum Olís-deildarinnar:
„Það kom töluvert á óvart. Ég bjóst við sigri hjá Haukum en Framararnir voru bara betri í raun og veru. Haukarnir voru sjálfum sér verstir á köflum, og það er í raun það versta í þessu.“