Óvíst er hvort og þá hve mikinn þátt leikstjórnandinn Gunnar Steinn Jónsson getur tekið í leik Íslands gegn Makedóníu í Skopje annað kvöld, í undankeppni EM í handbolta.
Gunnar Steinn, sem varð sænskur deildarmeistari með Kristianstad fyrir skömmu, meiddist á æfingu landsliðsins í Skopje nú síðdegis er hann sneri sig á ökkla. Hann tók ekki frekari þátt í æfingunni en aðrir leikmenn íslenska liðsins virtust komast vel frá henni.
Segja má að óheppnin hafi elt Gunnar Stein í dag því á leið íslenska hópsins frá Þýskalandi í morgun týndist ferðataska hans. Fjölnismaðurinn varð því að fá skó að láni fyrir æfinguna og það kann að hafa haft sitt að segja um hvernig fór þar.
Áður var ljóst að markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson yrði ekki með í leiknum vegna meiðsla, en Stephen Nielsen var kallaður inn í hans stað.
Ísland og Makedónía mætast kl. 18 annað kvöld að íslenskum tíma, eða kl. 20 að staðartíma. Mbl.is er á staðnum og fjallar ítarlega um leikinn.