„Við leggjum þetta upp sem úrslitaleiki. Við þurfum sex stig úr síðustu fjórum leikjunum og útlitið er gott ef við vinnum þennan leik. En við vitum alveg hvað bíður okkar hér. Það verður stappfull höll og það hafa verið læti í þjóðfélaginu síðustu daga, en við erum komnir hingað til að spila handbolta og einbeitum okkur að því. Það hefur yfirleitt hjálpað okkur þegar það eru læti og stemning, og ég hef trú á að þannig verði þetta,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta.
Björgvin hefur verið aðalmarkvörður Íslands í tæpan áratug og þekkir það vel að glíma við Kiril Lazarov og félaga í makedónska landsliðinu. Í kvöld mætast liðin í Skopje í undankeppni EM, og þau mætast svo aftur á sunnudag í Laugardalshöllinni.
„Þessir leikir við Makedóníu hafa alltaf verið hálfgerð stríð og margir leikjanna eru eftirminnilegir. Síðasti þeirra var á HM í Frakklandi svo hann er í fersku minni, og þó að þetta sé svipaður leikmannahópur þá koma tveir nýir, sterkir inn sem vantaði hjá þeim. Stærsti óvissuþátturinn er svo auðvitað nýi þjálfarinn, sem er talsvert öðruvísi en sá sem fyrir var,“ sagði Björgvin, en Spánverjinn Raúl González er tekinn við Makedóníu af Lino Cervar sem stýrði því á HM.
Stórstjarna, fyrirliði og aðalmarkaskorari Makedóníu er auðvitað Kiril Lazarov og Björgvin hefur kynnt sér hans leik í þaula:
„Það eru fáir leikmenn sem maður hefur skoðað fleiri skot hjá en Lazarov. Mér finnst ég alltaf vera að mæta honum. Hann hlýtur að vera kominn einhvern veginn í undirmeðvitundina hjá mér. Að sama skapi þekkir hann mig vel líka. Við höfum háð margar rimmurnar saman, og sjálfsagt enginn tekið jafnmörg víti gegn mér. Mér líður svolítið eins og hann sé liðsfélagi minn, við þekkjum svo vel hvor annan, en hann er auðvitað leikmaður í algjörum heimsklassa og við verðum bara að vera klárir í hann,“ sagði Björgvin.
Sjá allt viðtalið við Björgvin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag