„Oft slegið í brýnu“

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. AFP

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, á auðvelt með að rifja upp sögur frá leikjum í Skopje í Makedóníu, þar sem Ísland mætir heimamönnum í dag kl. 18. Um er að ræða þriðja leik Íslands í undankeppni EM en þjóðirnar mætast svo aftur á sunnudag í Laugardalshöll.

„Við höfum spilað hérna nokkrum sinnum, bæði góða og miður góða leiki,“ sagði Guðjón við Morgunblaðið inni í Boris Trajkovski-höllinni þar sem íslenska liðið æfði í gær. „Það er rosalega gaman að spila handbolta hérna. Það eru mikil læti og stemning og mikil ástríða í landinu fyrir handbolta. Ég get ímyndað mér að leikmönnunum líði álíka vel hér eins og okkur líður í Höllinni heima,“ sagði Guðjón.

Ólíklegt er að leikstjórnandinn Gunnar Steinn Jónsson verði með Íslandi í leiknum í dag eftir að hann sneri sig á ökkla á æfingunni í gær. Aðrir leikmenn íslenska liðsins virðast klárir í slaginn sem Guðjón telur að verði harður. Ísland er í jafnri baráttu í sínum undanriðli fyrir EM, með tvö stig líkt og Makedónía og Tékkland. Úkraína er efst í riðlinum með fjögur stig eftir sigur á Tékklandi í gær, en tvö lið komast áfram. Strákarnir okkar stefna á fjögur stig úr leikjum sínum við Makedóníu en það gæti reynst þrautin þyngri:

„Þeir eru með ágætis lið – eru að fá marga unga og efnilega stráka í bland við reynslumeiri menn sem þeir eru með. Þeir eru komnir með frábæran þjálfara [innsk.: Raúl González], einn þann besta í bransanum í dag, en hann hefur ekki haft mikinn tíma með liðið. Það er erfitt að segja hvort þeir henta okkur betur eða verr en önnur lið. Þetta hafa alltaf verið hörkurimmur, því við spilum þannig lagað séð ekki ósvipaðan handbolta. Það eru mikil læti og djöfulgangur oft í báðum vörnum, og oft hefur því slegið í brýnu á milli manna og skapast svolítill hasar. Þetta hafa bara verið hörkugóðir og skemmtilegir leikir og ég vona að það haldi þannig áfram,“ sagði Guðjón.

Sjá allt viðtalið við Guðjón Val í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert