Steig rétt skref á ferlinum

Josip Juric Grgic.
Josip Juric Grgic. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar ég fékk tækifæri til þess að koma til Íslands vissi ég ekkert um landið eða handboltann. Vissi lítt við hverju mátti búast, renndi blint í sjóinn,“ sagði Josip Juric Grgic, króatískur handknattleiksmaður sem leikið hefur með bikarmeisturum Vals á þessu keppnistímabili.

Grgic, sem er nýorðinn 22 ára gamall, er frá Zagreb, höfuðborg Króatíu, líkar vel við lífið á Íslandi og ber Valsmönnum góða söguna.

„Fyrst kom ég til Íslands í júlí og dvaldi í fimm daga. Á þeim tíma kynntist ég aðeins strákunum í liðinu, félaginu og aðstöðunni hjá Val. Ég var sáttur við það sem ég sá, fór heim til Króatíu en flutti síðan til Íslands hálfum mánuði síðar,“ sagði Grgic þegar Morgunblaðið talaði við hann milli æfinga í keppnisferð Vals til Turda í Rúmeníu um liðna helgi.

Grgic lék með yngri landsliðum og var m.a. í silfurliði Króata á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða í Ungverjalandi fyrir fáeinum árum. Hann var með RK Dubrava í heimalandi sínu 2014 og 2015 áður en söðlað var um haldið til Katar í fyrravetur þar sem Grgic lék með Al-Saad um nokkurt skeið.

Grgic leikur í stöðu vinstri skyttu og hefur reynst Valsliðinu góður liðsstyrkur og skorað mikið. Sjálfur segist hann hafa tekið framförum sem leikmaður hjá Val. Þar af leiðandi hafi Íslandsdvölin reynst sér mikilvæg á þessum tíma á ferlinum.

„Ég valdi að koma til Íslands vegna þess að ég sá möguleika á að taka framförum sem handknattleiksmaður og einnig að vinna, vera í sigurliði. Ég hef orðið bikarmeistari með Val og hver veit hvað gerist á Íslandsmótinu. Við erum enn með í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn.“

Sjá allt viðtalið við Grgic í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert