„Tilfinningin er ömurleg. Þetta var hörkuleikur allan leikinn og óþarfi að tapa þessu með fimm mörkum. Við sýndum góðan karakter á köflum en klúðruðum allt of mörgum dauðafærum í lokin sem gerði þennan mun,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður, eftir tap Íslands gegn Makedóníu í undankeppni EM í handbolta í kvöld.
„Við þurfum að leikgreina okkar leik, því ég held að við höfum ekki fengið mark á okkur úr horni, eða á milli varnarmanns 1 og 2, allan leikinn. Þetta kom allt í gegnum miðjuna, hvort sem það var frá skyttunum eða af línunni, og við þurfum að stoppa í þessi göt. Það er stutt í annan leik á móti þeim,“ sagði Björgvin, en liðin mætast aftur í Laugardalshöll á sunnudaginn.
Björgvin skoraði eitt mark fyrir Ísland í leiknum, snemma í seinni hálfleik, og jafnaði metin en þá virtist leikurinn vera að snúast Íslandi í vil:
„Já, þetta virtist vera að ganga með okkur en þetta er erfitt þegar þeir fá slíka kafla líka. Þá eru þeir með höllina á bakvið sig. Það er ekki þannig að við koðnum heldur fara þeir kannski að spila „yfir getu“ – verða helvíti magnaðir. Þeir eru með heimsklassamenn eins og [Filip] Mirkulovski á miðjunni og [Kiril] Lazarov, sem tók þetta svolítið í sínar hendur. Þetta eru menn sem eru ógeðslega erfiðir þegar þeir komast á flug. En við hefðum viljað bjóða upp á meiri spennu í restina og reyna að stela þessu, þó að þetta sé erfiður útivöllur. Við erum svekktastir með okkur sjálfa,“ sagði Björgvin, en gat íslenska liðið gert eitthvað meira til að stöðva Lazarov í kvöld?
„Við þurfum svolítið að velja hvort við viljum að hann skjóti eða setji boltann á línuna. Hann má ekki gera bæði. Hann fékk svolítið að leika lausum hala og við leyfðum honum að stjórna leiknum. Hann fær ekki að stjórna leiknum í Höllinni. Við komum í veg fyrir það.“