Íslenska liðið getur hefnt fyrir tapið á sunnudaginn þegar lið Makedóníu mætir í Laugardalshöll, en leikið var í Skopje í Makedóníu í kvöld. Arnar tók undir að Ísland ætti meira inni fyrir seinni leikinn:
„Við hefðum náttúrulega getað verið mikið þéttari í vörninni, og kannski agaðri í sóknarleiknum líka, en ég hef ekki alveg svörin við þessu núna,“ sagði Arnar. Hann kvaðst fyrst og fremst ánægður með lætin og stemninguna hjá stuðningsmönnum Makedóníu í Boris Trajkovski-höllinni í kvöld:
„Mér fannst þetta ekki hafa nein áhrif á okkur, þannig séð. Mér finnst bara geggjað gaman að spila fyrir framan svona marga, og hafa alla á móti sér. Ég fíla það í botn. Þetta gekk bara ekki alveg upp í dag. Mér fannst menn alveg vera að gera sína vinnu, en þeir voru bara betri,“ sagði Arnar.
Ísland og Tékkland eru neðst í undanriðlinum með 2 stig hvort en Úkraína og Makedónía hafa 4 stig, nú þegar undankeppnin er hálfnuð. Tvö efstu liðin komast á EM:
„Staðan er erfið, en við verðum bara að halda áfram. Við verðum bara að vinna restina af leikjunum. Það er erfitt verkefni, en maður er í þessu sporti til að takast á við erfið verkefni,“ sagði Arnar.