„Ég sagði fyrir þennan leik að við þyrftum ekki að vinna með 5-6 marka mun. Ég sagði að aðalatriðið væri að við ynnum þennan leik og líka þann í Reykjavík á sunnudaginn. Við förum til Íslands til þess að leggja allt í sölurnar til að vinna,“ sagði Borko Ristovski, markvörður Makedóníu og Barcelona, við Morgunblaðið eftir sigurinn á Íslandi í undankeppni EM í handbolta í Skopje í gær.
„Mér fannst við spila fyrri hálfleikinn af miklum krafti. Síðan fóru aðstæður hér í höllinni að segja til sín því eins og þú fannst eflaust sjálfur þá er ansi heitt hérna. Leikur okkar datt aðeins niður á kafla en þetta eru auðvitað sömu aðstæður fyrir bæði lið,“ sagði Ristovski, en Ísland komst yfir snemma í seinni hálfleik. Makedóníumenn náðu frumkvæðinu hins vegar fljótt aftur og unnu leikinn 30:25.
Viðtalið við Ristovski í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.