Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik, var vissulega sáttur við 30:29 sigur á Makedóníu í undankeppni EM sem fram fer í Króatíu á næsta ári. Öll fjögur lið riðilsins eru nú jöfn með fjögur stig.
„Þessi sigur var ótrúlega mikilvægur. Þegar nokkrar mínútur voru eftir vildi ég athuga hvort við kæmumst ekki sex mörkum yfir og myndum ná þeim innbyrðis, mér fannst við vera með þá. En fyrst og fremst erum við mjög sáttir við að vinna leikinn og halda okkur á lífi í þessum riðli. Við vitum að við komumst áfram ef við fáum fjögur stig í viðbót og það er frábært að þetta sé í okkar höndum.“
„Þetta var rosalega erfiður leikur og þetta var basl allan tímann, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við töldum okkur eiga skilið að vera yfir í hálfleik en við náðum ekki að klukka þá nógu mikið og þess vegna var staðan 16:16 í hálfleik en ekki við nokkrum mörkum yfir."
Hver var munurinn á leiknum í dag og í Makedóníu, sem tapaðist með fimm mörkum?
„Við fáum nokkra hluti með okkur í staðinn fyrir að nokkrir hlutir falla með þeim. Við vorum inn í leiknum úti þangað til það voru fimm mínútur eftir, þá vorum við einu marki undir og það var algjört rugl að tapa þeim leik með fimm mörkum. Kannski er það heimavöllurinn, við fengum stuðning og þá vilja margir hlutir falla með manni. Við vitum að við eigum góðan heimavöll, en núna þurfum við að sækja stig í Tékklandi.“
Eins og áður segir, eru öll liðin í riðlinum með fjögur stig, Arnór hefur ekki séð annað eins.
„Öll liðin eru jöfn með fjögur stig, ég hef aldrei séð það áður. Það kemur sér vel núna því við erum búnir að tapa fjórum stigum strax. Þeir sem slá til síðustu vikuna um miðjan júní eiga skilið að komast áfram. Við ætlum okkur að ná því,“ sagði Arnór.