Þarf að fara í bækurnar mínar og tékka

Guðjón Valur Sigurðsson spjallar við landsliðsþjálfarann sinn, Geir Sveinsson.
Guðjón Valur Sigurðsson spjallar við landsliðsþjálfarann sinn, Geir Sveinsson. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Við unnum, það er aðalmunurinn og við förum með stig úr þessum leik en ekki hinum,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, eftir 30:29 sigur á Makedóníu í undankeppni EM í Króatíu í Laugardalshöllinni í kvöld. Ísland tapaði fyrir sama andstæðingi á fimmtudaginn var. 

„Mér fannst við helvíti flottir í vörninni í seinni hálfleik og við náum nokkurra marka forskoti. Þetta var smá erfitt í fyrri hálfleik og við fengum mörg mörk á okkur en sóknin var að virka vel, mér fannst við flottir í dag. Þetta var mikilvægur leikur og þess vegna er eðlilegt að það var smá taugatitringur í mönnum.“

Ísland var fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik, en Guðjón var ekki mikið að stressa sig á því að munurinn hafi aðeins verið eitt mark í lokin. 

„Ég er svo sáttur að við unnum þennan leik, við skulum byrja þar áður en við förum að tala um að vinna stærra.“

Öll lið riðilsins eru jöfn með fjögur stig. Guðjón hugsaði sig um er blaðamaður spurði hvort hann hefði lent í öðru eins. 

„Ég hef eflaust séð þetta áður, ég er búinn að vera svo lengi í þessu. Ég þarf að fara í bækurnar mínar og tékka á þessu. Þetta er svolítið sérstakt og rosalega jafn riðill og þetta var gríðarlega mikilvægur leikur og það var pressa á mönnum sem þeir réðu vel við og kláruðu þetta.“

„Það þarf ekki að laga mikið, við þurfum að halda áfram því sem við erum að gera, það mun bera árangur, það er ekki spurning,“ sagði fyrirliðinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert