Hjörvar Ólafsson,
„Því er ekki að leyna að ég er mjög ánægður með þennan sigur þar sem þetta var lífsnauðsynlegur sigur til þess að vera áfram með í baráttunni um sæti í lokakeppninni. Ég er sáttur við sigurinn og stigin tvö þó svo að ég hefði vilja vinna stærra,“ sagði Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, eftir 30:29-sigur liðsins gegn Makedóníu í undankeppni EM 2018 í Laugardalshöllinni í kvöld.
Öll liðin í riðli 4, riðlinum sem Ísland, leikur í, eru með fjögur stig eftir leiki dagsins og ljóst að það eru síðustu tveir leikir íslenska liðsins verða úrslitleikir um sæti í lokakeppni HM 2018.
„Þessi leikur þróaðist á svipaðan hátt og leikurinn í Skopje, en við náðum að þessu sinni góðum kafla undir lokin og innbyrtum sigurinn. Mér fannst við vera búnir að vinna fyrir þessum góða kafla framan af leiknum og sigurinn því sanngjarn þegar á heildina er litið. Nú eru bara tveir úrslitaleikir framundan og það er alltaf gaman að spila úrslitaleiki,“ sagði Geir glaður í bragði.