„Þetta er úrslitaleikur fyrir okkur“

Aron Pálmarsson brýtur sér leið gegnum vörn Makedóníu í leiknum …
Aron Pálmarsson brýtur sér leið gegnum vörn Makedóníu í leiknum í Skopje á fimmtudag. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Við erum búnir að ná okkur eftir þetta æðislega ferðalag og erum að slípa hlutina betur saman,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Laugardalshöll í gær. Ísland mætir Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins í kvöld, eftir að hafa tapað fyrri viðureigninni úti með fimm mörkum á fimmtudag.

En er tími til þess að laga það sem fór miður í leiknum í Skopje á fimmtudag?

„Nei, ég get ekki sagt það. En það er tími til að fínpússa, sjá hvað við gerðum illa og slíkt. Þótt ekki sé hægt að æfa mikið er hægt að tala mikið, og við þurfum bara að koma því í framkvæmd í leiknum,“ sagði Aron og taldi upp það sem liðið ætlar að leggja sérstaka áherslu á að breyta.

„Við ætlum að „klukka“ þá aðeins meira í vörninni, þeir voru að fá of auðveld skot. Það þarf að ganga meira út í skytturnar. Í sókninni reynum við að hafa meira flæði á boltanum og sækja meira utanvert. Það eru helstu atriðin,“ sagði Aron.

Hann árétti að hugarfarið væri rétt stillt hjá strákunum. Þeir ætluðu sér að hefna fyrir tapið.

„Alveg klárlega, og þetta er bara úrslitaleikur fyrir okkur. Ef við töpum eigum við varla séns á að fara áfram og við setjum þetta þannig upp. Það kemur ekkert annað en sigur til greina,“ sagði Aron, sem vonast eftir að áhorfendur fjölmenni á leikinn.

„Já, að sjálfsögðu. Maður er orðinn vanur að spila alltaf fyrir fullri höll svo ég ætla að vona að fólk sjái sér fært að mæta og styðja okkur. Eins og ég segi er þetta úrslitaleikur og ef einhvern tímann þá þurfum við nú á fullri höll að halda,“ sagði Aron Pálmarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert