Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik, tók það jákvæða úr erfiðri stöðu Íslands í undankeppni Evrópumótsins þegar mbl.is ræddi við hann fyrir landsliðsæfingu í gær. Ísland mætir Makedóníu í Laugardalshöll í kvöld eftir að hafa tapað fyrri viðureign liðanna í Skopje á fimmtudagskvöldið.
„Við fengum erfitt ferðalag en náðum því strax úr okkur. Nú þurfum við bara að vera klárir. Það er kannski það góða við þetta allt saman að við vitum hvað við þurfum að gera til þess að fara áfram – vinna rest og það eru engin spurningarmerki. Stundum er það ágætt og við erum meðvitaðir um að við verðum að fá tvö stig,“ sagði Arnór við mbl.is.
Hann segir að hugurinn sé frekar stilltur á það að einbeita sér að áherslum landsliðsins frekar en hvað andstæðingurinn muni gera.
„Við náðum að skoða síðasta leik mjög vel og teljum okkur vita um ýmislegt sem má betur fara hvar sem er á vellinum, hvort sem er í vörn eða sókn. En það var margt jákvætt í þessu líka og við tökum það með okkur,“ sagði Arnór, en menn voru lengi að hengja haus eftir tapið úti.
„Við vorum hundfúlir og fannst við geta gert mun betur. En það þýðir ekki að hugsa um það lengur, nú er bara nýr leikur og ný stig í boði og við vitum að við verðum að fá þessi tvö stig,“ sagði Arnór Atlason við mbl.is.