Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handknattleik, segir að íslenska liðið muni ekki gera róttækar breytingar á leik sínum gegn Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll í kvöld. Ísland tapaði með fimm mörkum í Skopje á fimmtudag og hefur harma að hefna.
„Ég á ekki von á því, þó svo að ég sé í aðstöðu til þess að uppljóstra slíku hernaðarleyndarmáli. Við erum að reyna að halda okkur við það sem við gerðum vel á HM í Frakklandi. Við vorum smátíma að finna taktinn en þetta var farið að mjakast í rétta átt, svo ég á von á að það verði áframhald á því frá byrjun leiks á morgun [í kvöld],“ sagði Rúnar við mbl.is eftir æfingu landsliðsins í Höllinni í gær.
Hann segir að það sé margt sem hægt er að byggja á eftir fyrri viðureignina úti, en allt þurfi að ganga upp.
„Þetta var ekkert algalið sem við vorum að gera, en við vorum eiginlega bara sjálfum okkur verstir. Við vorum að senda boltann á vitlausa staði og nýta breiddina illa á vellinum. Það eru smáatriði sem við þurfum að fínpússa, og eins með vörnina. Hlutirnir þurfa bara að ganga upp svo við vinnum þennan leik,“ sagði Rúnar.
Hann segir að tapið hafi setið nokkuð í mönnum, en það sé þeirra að sýna sitt rétta andlit í kvöld.
„Allir voru drullusvekktir að gera ekki betur og við gátum ekki gengið frá borði með það hugarfar að allt hafi verið eins og við vildum hafa það. Stundum geturðu tapað á þann hátt, en það var ekki tilfinningin sem við höfðum á fimmtudag. Nú ætlum við að gera allt sem í okkar valdi stendur. Þá er ég sannfærður um að við munum vinna þennan leik,“ sagði Rúnar Kárason við mbl.is.