Bjarki Már Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, gengur til liðs við Stjörnuna í sumar. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Garðabæjarliðið sem tekur gildi þegar núverandi samningur Bjarka Más við þýska 2. deildarfélagið EHV Aue rennur út um mitt ár.
Frá þessu var greint á blaðamannafundi Stjörnunnar sem er nýhafinn.
Bjarki Már hefur síðustu fjögur ár leikið með EHV Aue.
Bjarki Már lék með HK árum saman og var m.a. í Íslandsmeistaraliði félagsins vorið 2012. Hann gekk til liðs EHV Aue árið eftir og vann sér sæti í íslenska landsliðinu um líkt leyti. Bjarki Már, sem er 28 ára gamall, á að baki 57 landsleiki og hefur tekið þátt í tveimur Evrópumótum og jafn mörgum heimsmeistaramótum með landsliðinu. Hann hefur fyrst og fremst leikið varnarleikinn og verið akkeri varnarinnar síðustu misseri.
Bjarki Már er fyrsti liðsstyrkurinn sem Stjarnan fær fyrir næsta keppnistimabil.