„Þetta er frábær fengur fyrir okkur og ekki síður Olísdeildina. Bjarki sýndi það á síðasta stórmóti, og í leikjunum við Makedóníu, að hann er heimsklassavarnarmaður,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar í handbolta, eftir að landsliðsmaðurinn Bjarki Már Gunnarsson skrifaði undir samning við félagið í gær.
Bjarki, sem er 28 ára og uppalinn hjá HK, kemur til Stjörnunnar frá Aue í Þýskalandi eftir að hafa leikið í þýsku 2. deildinni síðustu ár. Honum bauðst að vera áfram hjá Aue og fékk einnig fleiri tilboð um að vera áfram í atvinnumennsku, en sagði í viðtali sem sjá má á mbl.is að ekkert tilboðanna réttlætti það að vera áfram úti. Þess í stað samdi hann við Stjörnuna til 2019.
„Við erum með flott umhverfi hjá okkur og leikmenn sem hann þekkir til. Ég þjálfaði líka Bjarka í yngri landsliðum. Þetta voru nokkur samtöl og ég er bara ánægður með að það hafi tekist að landa svona klassaleikmanni,“ sagði Einar. „Ólafur Gústafsson verður áfram og svo fáum við Bjarka. Þeir þekkjast vel og geta myndað ágætis varnarmúr. Ef allir haldast heilir ættum við að geta teflt fram mjög skemmtilegu varnarliði,“ bætti Einar við.