Fram er Íslandsmeistari

Ragnheiður Júlíusdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir fallast í faðma á …
Ragnheiður Júlíusdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir fallast í faðma á gólfinu í Safamýri þar sem Framarar fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Kristinn

Fram er Íslandsmeistari kvenna í handknattleik eftir sigur á Stjörnunni, 27:26, í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Framhúsinu í kvöld. Fram vann þrjá leiki í einvíginu en Stjarnan sem er deildar- og bikarmeistari einn leik. 

Þetta er í 21. sinn sem Fram verður Íslandsmeistari í handknattleik kvenna. Síðast vann Fram titilinn fyrir fjórum árum, einnig eftir rimmu við Stjörnuna. 

Stjarnan hefur nú fengið silfurverðlaun fimm ár í röð, líkt og Fram gerði frá 2008 til 2012 að báðum árum meðtöldum.

Stjarnan byrjaði leikinn með miklum látum og náði þriggja marka forskoti áður en nánast nokkur vissu af, 4:1. Fram-liðið lét það ekki slá sig út af laginu og herti upp hugann í vörninni og náði að snúa leiknum sér í hag. Fyrstu 20 mínúturnar voru þó jafnar þar sem Fram-liðið hafði þó lengst af frumkvæðið með eins marks forskoti. Þegar kom inn á síðustu tíu mínútur hálfleiksins náði Fram hvað eftir annað þriggja marka forskoti og var með það þegar fyrri hálfleik lauk, 15:12.  Munurinn í fyrri hálfleik lá þó fyrst og fremst í markvörslunni. Guðrún Ósk Maríasdóttir fór á kostum í marki Fram og varði 14 skot meðan Heiða Ingólfsdóttir og Hafdís Renötudóttir vörðu eitt skot hvor í marki Stjörnunnar.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir virtist hafa minnkað muninn í þann mund sem fyrri hálfleikur var úti en eftir fundarhöld með eftirlitsmanni var það niðurstaða Arnars Sigurjónssonar og Svavars Ólafs Péturssonar, dómara,að markið hafi ekki verið gilt. Sjónvarpsupptaka sannað að um réttan dóm var að ræða en tæpt var á.

Fram-liðið hélt sjó í síðari hálfleik og hafði tveggja til fjögurra marka forskoti allt þar til um tíu mínútur voru til leiksloka. Þá missti Fram-liðið manna af leikvelli vegna rangrar skiptingar. Stjarnan notaði tækifærið og saxaði á forskot Fram niður í eitt mark. Eftir það var Stjarnan marki á eftir og gerði hvað hún gat til þess að jafna metin fram á síðustu sekúndu leiksins. Síðustu skot liðsins strönduðu á Guðrúnu Ósk sem átti stórleik og varði alls 27 skot í leiknum. Stórleikur hennar reið baggamuninn þegar upp var staðið enda var hún í leikslok valin leikmaður úrslitakeppninnar 2017 og er vel að því komin.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fram 27:26 Stjarnan opna loka
60. mín. Helena Rut Örvarsdóttir (Stjarnan) skoraði mark - 47 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert