„Tilfinning mín er að ég hafi átt leik lífs míns að þessu sinni. Vonandi er það rétt,“ sagði hetja Fram, nýkrýndra Íslandsmeistara í handknattleik kvenna, Guðrún Ósk Maríasdóttir markvörður, í sjöunda himni eftir að hafa tekið við Íslandsbikarnum ásamt stöllum sínum í íþróttahúsi Fram í gærkvöldi að loknum eins marks sigri, 27:26, á deildar- og bikarmeisturum Stjörnunnar í fjórða og síðasta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Fram vann þrjá leiki í rimmunni en Stjarnan einn og félagsmenn fögnuðu 21. Íslandsmeistaratitlinum í handknattleik kvenna frá því að sá fyrsti vannst fyrir 67 árum.
Guðrún Ósk fór hamförum í leiknum, varði 27 skot, þar af tvö vítaköst og var með rúmlega 50% hlutfallsmarkvörslu. Það var vel við hæfi að hún tryggði Fram sigur í leiknum með því að verjast tveimur síðustu skottilraunum Stjörnuliðsins á síðustu sekúndum leiksins í gærkvöldi.
„Þetta er eintóm gleði,“ sagði Guðrún sem varð Íslandsmeistari í handknattleik í fyrsta sinn í gærkvöldi. „Þetta var frábær leikur og það þarf svo sannarlega stáltaugar til að fara í gegnum leiki sem þessa,“ sagði Guðrún sem fór ekki aðeins á kostum í leiknum í gærkvöldi heldur einnig í fyrstu og annarri viðureign liðanna. Frammistaða hennar reið svo sannarlega baggamuninn fyrir Fram enda kom ekki á óvart að Guðrún Ósk var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni Olís-deildar kvenna af Handknattleikssambandi Íslands í leikslok.
„Svona stundir réttlæta allt það sem maður leggur í æfingar og keppni. Þetta er tilgangurinn með þessu öllu saman.“
Nánar er rætt við Guðrúnu Ósk og fjallað um Íslandsmeistaratitil Fram í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.