„Ég elska þennan dreng“

Hlynur Morthens lyftir bikarnum á loft í Kaplakrika í dag.
Hlynur Morthens lyftir bikarnum á loft í Kaplakrika í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ótrúleg samheldni í þessum hópi okkar og við gefumst aldrei upp. Við missum aldrei trúna og það er stórkostleg tilfinning að hafa loks náð að vinna Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Hlynur Morthens, markvörður Vals, við mbl.is eftir að Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í 22. sinn eftir sigur á FH-ingum í hreinum úrslitaleik í Kaplakrika í dag.

Hlynur er 41 árs gamall og hann var eðlilega í skýjunum eftir að hafa unnið sinn fyrsta meistaratitil.

„Þetta er búið að vera ótrúleg sería og það er hreint magnað að allir leikirnir unnust á útivelli,“ sagði Hlynur Morthens, sem varði vel í fyrri hálfleik en Valsmenn hafa haft þann hátt á að skipta hálfleikjunum á milli markvarðanna.

Spurður hvort hann ætli nú að ljúka löngum ferli sínum og hætta þar með á toppnum sagði Hlynur:

„Nei ég á ekki von á því að ég sé hættur. Það er ekki hægt að hætta eftir svona frábært tímabil. Ég er búinn að bíða allan minn feril eftir þessari stundu. Ég las viðtal við leikmann kvennaliðs Fram í Mogganum þar sem hún var búin að bíða og bíða eftir því að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Hún er 19 ára en ég verð 42 ára gamall á þessu ári. Ég er búinn að bíða aðeins lengur en hún. Ég er varla búinn að átta mig á þessu og það er ekkert sem toppar þessa tilfinningu,“ sagði Hlynur og brosti breitt.

„Okkur líður vel í hálfleik þegar leikurinn er jafn en Siggi gerði gæfumuninn með frammistöðu sinni í markinu í seinni hálfleik. Ég elska þennan dreng. Vörnin var frábær og hann lokaði markinu gjörsamlega á löngum köflum,“ sagði Hlynur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka