„Ég fékk mér einn banana að borða í hálfleiknum og hann gerði mér ansi gott,“ sagði Valsmaðurinn Ólafur Ægir Ólafsson við mbl.is eftir að Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eftir sigur á FH í hreinum úrslitaleik í Kaplakrika.
Mikill hamur rann á Ólaf í seinni hálfleik og hann skoraði á skömmum tíma fjögur afar mikilvæg mörk eftir að hafa átt frekar erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiknum.
„Ég var ekki alveg að finna mig í fyrri hálfleiknum en ég nýtti mér glufurnar í vörn FH í síðari hálfleik og þá gengu hlutirnir miklu betur. Ég hugsaði að ég yrði að taka af skarið og okkur tókst það sem við ætluðum okkur. Þrátt fyrir að vera á eftir FH-ingum í fyrri hálfleiknum þá höfðum við engar áhyggjur. Við héldum ró okkar og náðum smátt og smátt að taka leikinn yfir.
Stórkostlegu tímabili er lokið sem maður á eftir að muna lengi eftir. Þátttakan í Evrópukeppninni gaf okkur mikið og allt þetta rugl sem átti sér stað úti í Rúmeníu þjappaði hópnum bara enn meira saman. Það er geggjuð tilfinning að hafa landað titlinum og ég held að þetta sé rétt að byrja hjá Val,“ sagði Ólafur Ægir.