Gamli FH-ingurinn fagnaði í Krikanum

Sigurður Ingiberg og samherjar hans fagna Íslandsmeistaratitlinum í Kaplakrika í …
Sigurður Ingiberg og samherjar hans fagna Íslandsmeistaratitlinum í Kaplakrika í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég ætlaði bara að gera mitt besta og ég held að mér hafi tekist bara nokkuð vel upp,“ sagði Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður Valsmanna, við mbl.is eftir að Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla eftir sigur á FH-ingum í hreinum úrslitaleik í Kaplakrika í dag.

Sigurður Ingiberg leysti Hlyn Morthens af hólmi í marki Vals í seinni hálfleik og hann átti stórkostlega innkomu. Sigurður varði alls 15 skot í seinni hálfleiknum, mörg úr dauðafærum og það var ekki síst fyrir hans frammistöðu sem Valsmenn sigu fram úr og unnu að lokum öruggan sigur.

„Okkur líður vel í Krikanum og ég held að við höfum sýnt og sannað að við erum besta liðið á Íslandi. Við unnum bikarinn og tókst svo að landa þeim stóra með því að vinna FH þrisvar sinnum á þeirra heimavelli. Mín innkoma taldi eitthvað í því að við sigum fram úr en við unnum þetta sem ein frábær liðsheild og ég er að springa af gleði,“ sagði Sigurður Ingiberg, sem er FH-ingur að upplagi.

„Það er ekkert betra í heimi en að taka á móti Íslandsbikarnum hér í Kaplakrika,“ sagði Sigurður Ingiberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka