„Við fórum bara vel yfir málin í hálfleiknum. Við vorum alveg rólegir þar sem munurinn var aðeins tvö mörk en þetta small saman hjá okkur í seinni hálfleik. Vörn og markvarslan gerði útslagið og ég verð að hrósa strákunum fyrir frábæra vinnusemi,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar af þjálfurum Vals, við mbl.is eftir að Valur tryggði sér sinn 22. Íslandsmeistaratitil í handknattleik eftir sigur gegn FH í oddaleik í Kaplakrika.
„Við fórum illa með mörg dauðafæri í fyrri hálfleik en við sögðum við strákana að halda ró sinni og spila sinn leik. Við náðum upp frábærum varnarleik í seinni hálfleik og Siggi í markinu var frábær. Þetta skilaði því að við náðum undirtökunum í leiknum og uppskárum frábæran sigur.
Þetta tímabil er búið að vera hreint stórkostlegt í alla staði og ég hef aldrei upplifað annað eins. Strákarnir og félagið áttu það svo skilið að við yrðum Íslandsmeistarar eftir allt sem á undan er gengið. Turda-helvítið tók mikið á okkur andlega en við náðum að nýta það til góðs og að lokum hjálpaði það okkur í þessu einvígi. Við eigum enn eftir að vinna úr þessu áfalli sem við lentum í eftir leikinn í Rúmeníu. Það eru bjartir tímar fram undan hjá Val og meðbyrinn er mikill hjá félaginu og jákvæðir straumar flæða um allt á Hlíðarenda,“ sagði Guðlaugur.