„Það er draumur allra að landa þeim stóra og ég er svo glaður og ánægður,“ sagði Alexander Örn Júlíusson, leikmaður Vals, við mbl.is eftir að Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í 22. sinn með sigri á FH-ingum í oddaleik liðanna í Kaplakrika í dag.
Alexander er sonur Júlíusar Jónassonar, sem gerði garðinn frægan með Val og íslenska landsliðinu.
„Pabbi hringdi sérstaklega í mig fyrir leikinn og sagði mér að njóta augnabliksins. Ég trúi ekki öðru en að hann sé að springa úr stolti núna,“ sagði Alexander sem varð í dag Íslandsmeistari í fyrsta sinn í meistaraflokki en karl faðir hans á nokkra titla með Hlíðarendaliðinu.
„Við vorum að elta FH-ingana í fyrri hálfleik en mættum gríðarlega grimmir út í seinni hálfleikinn þar sem við lokuðum vörninni og Siggi markinu og þetta gaf okkur sjálfstraust. Þá fengum við ótrúlegan stuðning úr stúkunni.“