„Sigurður vann leikinn fyrir Val“

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það sem skipti sköpum í að við töpuðum þessum leik var að við nýttum ekki færin okkar í seinni hálfleik og ég og við allir erum eðlilega afar svekktir með þessa niðurstöðu,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, við mbl.is eftir tapið gegn Val í hreinum úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deild karla í handknattleik í Kaplakrika í dag.

FH-ingar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og voru með tveggja marka forskot þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Í þeim síðari tóku Valsmenn völdin og þar vó markvarsla Sigurðar Ingibergs Ólafssonar, markvarðar Vals, þyngst sem og frábær varnarleikur Valsmanna.

„Ég hef ekki tölu á hversu mörgum dauðafærum við klikkuðum á í seinni hálfleiknum. Sigurður Ingiberg reyndist okkur afar erfiður og við það að klikka úr öllum þessum færum datt varnarleikurinn niður hjá okkur. Sigurður vann einfaldlega leikinn fyrir Val en mér fannst að við hefðum átt að vera með meira forskot eftir fyrri hálfleikinn,“ sagði Ásbjörn, sem var markahæstur í liði FH með 6 mörk.

„Það er ömurlegt að hafa ekki náð að toppa þetta annars frábæra tímabil hjá okkur með því að vinna leikinn fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn. Því miður þurftum við að sjá Valsmenn lyfta bikarnum í Krikanum og það var ansi sárt. Við megum ekki hengja hausinn of lengi og nú þurfum við bara að byggja ofan á þetta frábæra tímabil og mæta til leiks enn sterkari á næsta tímabili. Þetta verða súrir dagar það sem eftir er af maímánuði,“ sagði Ásbjörn.

Mér líður ömurlega

„Mér líður ömurlega,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH-inga, við mbl.is eftir ósigurinn gegn Val.

„Við hættum að spila vörn í seinni hálfleik og gengum ekki út í skotmennina þeirra. Þeir skoruðu auðveld mörk og Siggi varði eins og skepna í markinu. Við urðum eitthvað hræddir við hann og skotin á hann urðu lélegri og lélegri. Þetta er leiðinleg lífsreynsla en við drögum vonandi lærdóm af þessu. Mér fannst einhvern veginn allt vera á móti okkur í seinni hálfleik og ekki bætti úr skák að margir dómar féllu á móti okkur.

En þrátt þessa niðurstöðu getum við tekið margt jákvætt með okkur. Þetta var eftirminnilegt tímabil en þessir þrír leikir sem við töpuðum á heimavelli í þessu úrslitaeinvígi voru einfaldlega lélegir af okkar hálfu og því fór sem fór,“ sagði Ágúst Elí, sem stóð fyrir sínu á milli stanganna en hann varði 12 skot í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka