Vilja 126 milljónir fyrir Aron

Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er ekki í þeim leikmannahópi sem ungverska liðið Veszprém teflir fram í fyrstu leikjunum í Meistaradeild Evrópu í handbolta á þessu keppnistímabili.

Um er að ræða fyrstu fimm leikdagana og er Aron ekki á meðal þeirra nafna sem finna má á leikmannalistanum sem ungverska félagið skilaði inn.

Kemur það svo sem ekki á óvart enda hefur Aron ekkert æft með liðinu eftir að undirbúningstímabilið hófst í sumar eins og fram hefur komið.

Spænska íþróttablaðið Mundo Deportivo fullyrðir að Veszprém vilji enn fá sama verð og áður fyrir Íslendinginn og er talað um 1 milljón evra í því sambandi eða 126 milljónir íslenskra króna á núverandi gengi.

Stórlið Barcelona hafði sem kunnugt er áhuga á Aroni og þykir afar líklegt að hann fari til Katalóníu næsta sumar þegar samningur hans við Vészprém rennur út. Spænska blaðið segir enn vera óljóst hvort Barcelona muni  reyna að kaupa Aron af Veszprém.

Dýrasti leikmaður í sögu handboltans er væntanlega Nikola Karabatic en kaup PSG á Frakkanum frá Barcelona eru talinn hafa kostað um 2 milljónir evra. Ungverjarnir vilja því fá um helming þeirrar upphæðar fyrir Aron ef heimildir spænska blaðsins eru réttar.

Ef sættir nást milli Arons og Veszprém þá á hann enn möguleika á því að spila í Meistaradeildinni í vetur. Ef nafn hans er tilkynnt inn í keppnina fyrir 31. október þá verður hann löglegur eftir fyrstu fimm leikina. Einnig er hægt að koma inn í keppnina fyrir útsláttarkeppnina eftir 1. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert