Sunna Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, leikur ekkert með sænska liðinu Skara HF á þessari leiktíð, eins og til stóð. Hún er ófrísk og á von á sér um miðjan mars.
Sunna er þriðja landsliðskonan í handbolta sem ber barn undir belti um þessar mundir. Hinar eru Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Steinunn Björnsdóttir. „Ég stefni á að gera eins og margar frábærar handboltakonur sem hafa komið sterkari til baka eftir barnsburð,“ sagði Sunna við Morgunblaðið.