Rússneska liðið St.Pétursborg hefur kært til evrópska handknattleikssambandsins framkvæmd leiksins gegn FH-ingum í EHF-keppninni sem fram fór í St.Pétursborg í gær.
Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH staðfesti þetta í samtali við mbl.is í morgun en hann hafði þá nýfengið þær fréttir að Rússarnir hafi lagt inn kæru til EHF.
„Ég var bara að fá þessar fréttir fyrir fimm mínútum síðan. Rússarnir eru búnir að leggja inn kæru til EHF og halda því fram að mistök hafi verið gerð við framkvæmd leiksins,“ sagði Ásgeir í samtali við mbl.is en hann var þá staddur á flugvellinum í Helsinki í Finnlandi.
Úrslit leiksins í gær urðu, 32:27, St.Pétursborg í vil en sömu úrslit urðu í fyrri leiknum sem fram fór í Kaplakrika. Finnskum eftirlitsmanni á leiknum urðu á mistök en í stað þess að fara beint í vítakeppni var leikurinn framlengdur um 2x5 mínútur og lokatölur urðu, 37:33. FH vann þar með einvígið, 37:33.
„Eftirlitsmaður tók fram á tæknifundi fyrir leikinn að það yrði farið í tvær framlengingar og síðan í vítakeppni. Það voru engar athugasemdir gerðar við þetta hjá félögunum. Þegar framlengingin var að hefjast tók hann upp reglubókina og hann og dómararnir báru saman bækur sínar í einhverjar tíu mínútur áður en leikurinn var flautaður á. Mér skilst að það sé þrennt í stöðunni. Að leikurinn verði spilaður aftur, að það verði vítakeppnin eins og sér eða að úrslitin verði látin standa,“ sagði Ásgeir.