Alltaf rætt um framlengingu

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn St.Pétursborg í fyrri leik …
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að vörn St.Pétursborg í fyrri leik liðanna í EHF-keppninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum frest til klukkan 5 á morgun [í dag] til þess að skila okkar greinargerð um málið. Þar lýsum við okkar upplifun af málinu. Við áætlum að það komi niðurstaða í málið strax á miðvikudagsmorgun [í fyrramálið],“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, um kærumál vegna einvígis liðsins við rússneska liðið St. Pétursborg í 2. umferð EHF-bikars karla.

Rússneska félagið kærði framkvæmd seinni leiks liðanna vegna mistaka finnsks eftirlitsmanns EHF. Sá taldi að grípa ætti til 2x5 mínútna framlengingar yrði staðan í einvíginu jöfn að loknum tveimur leikjum, en í raun átti að grípa til vítakeppni. FH tryggði sér sigur í framlengingunni og því kom aldrei til neinnar vítakeppni.

„Það er alveg ljóst að á tæknifundi með liðunum og eftirlitsmanni EHF fyrir leik kom skýrt fram að það yrðu tvær framlengingar og síðan hugsanlega vítakeppni. Eftir venjulegan leiktíma var þarna einhver tíu mínútna rekistefna varðandi það hvort útivallamörk væru ennþá í gildi í framlengingu, sem reyndist svo ekki vera. Það var aldrei nokkurn tíma nefnt, af neinum aðila, að það ætti að fara í vítakeppni, heldur að fyrst ætti að fara í framlengingu. Ef það var ekki rétt að fara í framlengingu þá er það auðvitað alfarið starfsmanni EHF að kenna, og þá er réttur Rússanna að leggja fram kvörtun,“ sagði Ásgeir. Hugsanlegt er að liðin verði að mætast að nýju, annaðhvort í heilum leik eða bara í vítakeppni, en líklegra að úrslitin muni standa.

„Ég sé bara ekki annað framkvæmanlegt. Fyrir utan að þetta er nú ekkert eins og að skjótast til Köben. Það fylgir þessu mikil pappírsvinna, fyrir utan svo kostnaðinn sem er gríðarlegur við svona langt ferðalag,“ sagði Ásgeir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert