Topplið Vals er áfram ósigrað í Olís-deild kvenna í handbolta. Valskonur fengu þó harða samkeppni frá Selfyssingum í kvöld en sigruðu með góðum lokakafla, 22:27.
Valur náði þriggja marka forskoti á fyrstu tíu mínútunum en eftir að hafa tekið leikhlé komu Selfyssingar til baka og náðu forystunni. Selfossvörnin var virkilega góð þegar leið á fyrri hálfleikinn og heimakonur leiddu 13:12 í hálfleik.
Leikurinn var í járnum framan af síðari hálfleik en um hann miðjan náði Valur tveggja marka forskoti á meðan allt gekk á afturfótunum hjá Selfyssingum. Í kjölfarið keyrði Valur góðar sóknir og vann að lokum fimm marka sigur gegn baráttuglöðu Selfossliði.
Kristrún Steinþórsdóttir var besti maður vallarins í kvöld, skoraði 8 mörk fyrir Selfoss og Viviann Petersen varði 11/1 skot í markinu.
Kristín Arndís Ólafsdóttir skoraði fimm sinnum af vítalínunni fyrir Val og var markahæst gestanna. Lina Rypdal varði 6 skot fyrir Val.