Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur þegið boð um að íslenska landsliðið taki þátt í sterku alþjóðlegu fjögurra þjóða móti sem stendur yfir í Noregi frá 2. til 8. apríl á næsta ári. Auk landsliða Noregs og Íslands senda Danir og heimsmeistarar Frakka lið til mótsins.
„Við reyndum að fá Norðmenn hingað til lands í þeim tilgangi að endurgjalda heimsókn okkar til þeirra í fyrra. Þeir svörðu með að bjóða okkur að taka þátt í þessu móti og við höfum þegið það enda er um góða leiki að ræða sem nýtast okkur afar vel fyrir viðureignirnar í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fara fram í júní,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.
„Ég reikna með að fara með mitt besta lið á þeim tíma til mótsins í Noregi svo leikirnir megi nýtast okkur sem best í undirbúningi fyrir verkefnin í júní,“ sagði Geir ennfremur.