Nú er það orðið ljóst að vítakeppnin fræga á milli FH og rússneska liðsins St. Pétursborg fer fram í St. Pétursborg í Rússlandi.
„Það er komin sú niðurstaða að vítakeppnin mun fara fram í St. Pétursborg og verður annað hvort um aðra eða þriðju helgi. Mér þykir líklegra að hún fari fram helgina 18.-19. nóvember,“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í samtali við mbl.is í dag en forráðamenn FH höfðu lagt til að vítakeppnin færi fram í Helsinki í Finnlandi.
Sem kunnugt er hafnaði EHF áfrýjun FH í tengslum við viðureign liðsins og St. Pétursborg í 2. umferð EHF-bikarsins fyrr í mánuðinum. FH komst áfram eftir framlengdan leik í Pétursborg, en Rússarnir kærðu leikinn vegna mistaka eftirlitsmanns þar sem reglurnar kveða á um vítakeppni í stað framlengingar. EHF úrskurðaði að vítakeppni ætti að fara fram. FH áfrýjaði þeim dómi en varð ekki ágengt í þeim efnum.
EHF mun greiða allan ferðakostnað FH en FH-ingar hafa ákveðið að fara með allan sinn leikmannahóp til Rússlands. Það lið sem hefur betur í vítakeppninni mætir Tatran Preov frá Slóvakíu í þriðju umferð keppninnar.