Aron útskýrir sína hlið

Aron Pálmarsson á æfingu Barcelona.
Aron Pálmarsson á æfingu Barcelona. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson leikur sinn fyrsta leik með Barcelona á laugardaginn þegar liðið tekur á móti króatíska liðinu Zagreb í Palau Blaugrana höllinni í Barcelona en liðin eigast þá við í Meistaradeild Evrópu. Aron var í vikunni formlega kynntur til leiks sem leikmaður Barcelona en eftir jap, jaml og fuður náðu Barcelona og ungverska meistaraliðið Veszprém samkomulagi um félagaskiptin.

Eins og frægt er orðið lenti Aron í deilum við Veszprém í sumar sem lauk með því að félagið rifti samningi sínum við hann og hótaði að fara í mál við hann sem hefði getað leitt til þess að Aron hefði verið dæmdur í tveggja ára keppnisbann. En eftir löng og ströng fundarhöld á milli félaganna tókst að höggva á hnútinn og Aron verður leikmaður Barcelona í það minnsta næstu fjögur árin en samningurinn sem hann skrifaði undir við Katalóníuliðið gildir fram á sumarið 2021.

Það var gott hljóð í Aroni þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær en hann er byrjaður að æfa á fullu með spænska meistaraliðinu og verður frumsýndur með liðinu á laugardaginn eins og áður hefur komið fram.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið mjög erfðir

,,Það er vitaskuld gríðarlegur léttir að þetta er allt saman búið og ég get einbeitt mér alfarið að handboltanum. Síðustu vikur og mánuðir hafa verið mjög erfiðir fyrir mig. Ég hef reynt að vera jákvæður og líta á björtu hliðarnar en auðvitað er þetta búið að vera hundleiðinlegt ferli. En sem betur fer á ég góða að sem hjálpuðu mér í gegnum þetta. Ég er gríðarlega þakklátur fjölskyldu minni, umboðsmanni, þeim lögfræðingum sem komu að þessu máli og svo að endingu Barcelona. Um leið og málið lenti á borði lögfræðinga þá gerði ég mér grein fyrir því að þetta yrði leiðindamál. Svona hlutir taka oft langan tíma og Veszprém vildi augljóslega gera mér lífið leitt. Maður sá alveg fyrir sér það versta þegar því var hótað að setja mig í tveggja ára bann. Ég hefði auðvitað leitað réttar míns ef það hefði orðið niðurstaðan en það hefði tekið langan tíma og allt upp undir eitt ár,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið í gær.

Upphafið að deilu Arons við Veszprém í sumar var þegar hann mætti ekki á fyrstu æfingu liðsins í sumar. Ungverska félagið greindi frá því á vef sínum í kjölfarið að Aron hefði neitað að mæta á æfingu og haft var eftir Ljubomir Vranjes, þjálfara liðsins, að hann ætlaði sér ekki að nota Aron á komandi leiktíð því hann hefði sýnt liðsfélögum sínum óvirðingu með framkomu sinni. Aron var samningsbundinn Veszprém út þessa leiktíð en það lá fyrir að hann færi til Barcelona næsta sumar. Spurður út í hans hlið á málinu og viðskilnaðinn við Veszprém sagði Aron;

Tjáði honum að ég ætti við persónuleg vandamál að stríða

,,Veszprém segir að ég hafi sent eitt sms-skeyti þar sem ég hafi sagst vera hættur. Þetta er alveg glórulaust. Það sem gerðist er að ég fór út og hitti Veszprém þegar ég mætti í læknisskoðun. Ég átti þá gott spjall við þjálfarann og sagði honum að ég ætti við ákveðin persónuleg vandamál að stríða sem ég þyrfti að takast á við. Vranjes skildi mína afstöðu en vildi auðvitað halda mér á staðnum. Ég sagði við hann að ég þyrfti að skoða þetta og ég þyrfti smá tíma til að vinna í mínum málum. Félagið vissi á þessum tímapunkti hvernig málum háttaði hjá mér. Þjálfarinn bað mig eftir þennan fund að segja sér hvað ég ætlaði að gera. Ég sendi honum sms-skeyti deginum eftir þar sem ég lét hann vita að ég ætlaði ekki að mæta á þessa fyrstu æfingu. Seinni partinn þennan dag er ég svo bara rekinn opinberlega frá félaginu. Ég fékk enga viðvörun heldur las ég bara um þetta í fjölmiðlum. Ég fékk algjört sjokk þegar ég sá þetta og þessi viðbrögð þeirra komu mér algjörlega í opna skjöldu og ég varð reiður. Ég setti mig um leið í samband við umboðsmann minn og eftir samtöl hans við lögfræðinga vildu þeir að ég segði ekki neitt um málið,“ segir Aron.

Aron spilar sinn fyrsta leik á laugardaginn við Zagreb í Meistaradeildinni eins og áður segir og verður hægt að sjá leikinn í beinni útsendingu á SportTV sem er hægt að nálgast á Rás 13 hjá Símanum og 29 hjá Vodafone.

Ítarlegt viðtal við Aron má finna í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert