Allt útlit er fyrir að handknattleiksmaðurinn Finnur Ingi Stefánsson spili ekki fleiri leiki með Gróttu á þessari leiktíð eftir að hann meiddist alvarlega í leiknum við Fjölni í Olís-deildinni í dag.
Finnur Ingi var fluttur á sjúkrahús vegna meiðslanna og Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, staðfesti við mbl.is nú í kvöld að þessi mikilvægi leikmaður og fyrirliði liðsins hefði slitið hásin í vinstri fæti.
Óhætt er að segja að þetta sé mikið áfall fyrir bæði Finn og Gróttuliðið en Finnur hefur glímt við hásinameiðsli síðan á síðustu leiktíð og hefur aðeins leikið fimm af 11 leikjum Gróttu í vetur vegna þeirra.