Talsverðar líkur eru á að Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik og leikmaður Hauka, gangi til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Skjern á næsta sumri.
Björgvin Páll staðfesti við Morgunblaðið í gær að hann hefði átt í viðræðum við danska liðið og sér litist afar vel á það sem liðið hefur upp á að bjóða.
„Aðstæður hjá Skjern eru allar til fyrirmyndar og afar fjölskylduvænar. Sem dæmi má nefna að þegar þeir höfðu samband við mig þá sögðust þeir vilja fá okkur út til sín, ekki bara mig. Það virkaði afar vel á mig og sagði mér hvaða hug þeir hafa sem reka félagið,“ sagði Björgvin Páll sem hefur fengið fyrirspurnir frá átta félögum, þar af sex í Þýskalandi, síðan hann flutti heim í sumar. M.a. hafnaði hann tilboði frá Flensburg, toppliði þýsku 1. deildarinnar.
„Ég er búinn með þýska pakkann. Hann er ekki fjölskylduvænn, allra síst hjá stóru liðunum sem eru á sífelldum ferðalögum. Fari ég út þá fer ég til Skjern, það er langlíklegast eins og staðan er núna,“ sagði Björgvin Páll sem reiknar með að taka upp þráðinn við Skjern þegar kemur fram í desember.
Sjá allt viðtalið við Björgvin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag