Arnór Þór Gunnarsson lék á als oddi með liði sínu, Bergischer, þegar liðið bar sigur úr býtum, 34:28, gegn Rhein Vikings í 18. umferð þýsku B-deildarinnar í handbolta í karla í dag. Arnór Þór skoraði tíu mörk fyrir Bergischer í leiknum.
Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Balingen í naumu 27:26-tapi liðsins gegn Lübecke-Schwartau. Þá skoraði Fannar Þór Friðgeirsson eitt mark í 26:26-jafntefli Hamm gegn Eisenach.
Bergischer trónir á toppi deildarinnar með 34 stig og hefur sjö stiga forskot á Bietigheim sem er í öðru sæti deildarinnar. Hamm er í fimmta sæti deildarinnar með 24 stig og Balingen sæti neðar með einu stigi minna.