Handknattleikskonan Hekla Rún Ámundadóttir er gengin til liðs við Hauka frá liði Aftureldingar í Mosfellsbæ. Hekla skrifaði undir samning sem gildir fram á sumar 2019.
Hekla Rún er 23 ára gömul. Hún er uppalin í ÍR en gekk til liðs við Fram fyrir tímabilið 2011-2012 þar sem að hún lék sex tímabil með meistaraflokki Fram í efstu deild. Fyrir þetta tímabil gekk hún svo til liðs við Aftureldingu þar sem hún lék með liðinu í Grill 66 deild-kvenna fyrir áramót. Auk þess hefur Hekla leikið fyrir öll yngri landslið Íslands en hún er örvhent og getur bæði spilað í horninu og skyttunni hægra megin.
Haukar eru í 2. sæti Olís-deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Vals. Þá eru Haukarnir komnir í átta liða úrslit í Coca Cola-bikarnum þar sem þeir mæta liði HK í byrjun febrúar.