Anna Úrsúla til liðs við Val á ný

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Val á sínum tíma.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Val á sínum tíma. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er gengin í raðir Vals á ný og hefur samið við handknattleiksdeild félagsins til loka tímabilsins 2019.

Anna er einn sigursælasti leikmaður Íslands undanfarin ár, en hún á að baki 101 landsleik og 221 landsliðsmark. Hún lék með Val árin 2010-2014 og skoraði yfir 600 mörk í 150 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum og varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrívegis bikarmeistari með liðinu. Þá var hún kjörin íþróttamaður Vals árið 2011.

Anna Úrsúla hefur síðastliðin ár leikið með uppeldisfélagi sínu Gróttu og varð Íslandsmeistari með liðinu árin 2015 og 2016. Í vetur hefur hún hins vegar ekkert spilað, en í lok nóvember eignaðist hún sitt annað barn með unnusta sínum Finni Inga Stefánssyni, fyrirliða karlaliðs Gróttu.

„Það er mjög góð viðbót við okkar öfluga hóp að fá Önnu til liðs við okkur, sér í lagi í ljósi þess að Hildur Björnsdóttir verður ekki meira með á tímabilinu. Anna er frábær handboltamaður en ekki síður mikill karakter,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, um komu Önnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert