Óheppnin heldur áfram að elta lærisveina Einars Andra Einarssonar í handknattleiksliði Aftureldingar. Meiðslalistinn hefur verið langur á leiktíðinni og á sunnudaginn bættist hornamaðurinn Árni Bragi Eyjólfsson á listann.
Árni Bragi sneri sig á ökkla í síðasta leiknum á fjögurra liða æfingamóti í Riihimäki í Finnlandi. „Fyrst vonuðum við að þetta væri minniháttar en því miður er þetta verra en við töldum. Árni Bragi verður frá keppni í nokkrar vikur,“ sagði Einar Andri við Morgunblaðið í gær.
Árni Bragi er markahæsti leikmaður Aftureldingar í deildinni í vetur með 87 mörk í 14 leikjum og ljóst að skarð verður fyrir skildi.
Fyrir eru á sjúkralista Aftureldingar Birkir Benediktsson, Elvar Ásgeirsson og Pétur Júníusson. Vonir standa til að Birkir verði klár í slaginn þegar Afturelding fær Fram í heimsókn eftir viku en Framarar hafa reynst Mosfellingum erfiðir í vetur.