Toppliðið skellti Selfossi

Sólveig Lára Kjærnested átti stórleik í dag.
Sólveig Lára Kjærnested átti stórleik í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Topplið Vals vann öruggan 28:13-sigur á Selfossi á heimavelli sínum Í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Staðan var 16:8 í hálfleik og skelltu Valskonur í lás í seinni hálfleik og sigldu góðum sigri í hús eftir tvo tapleiki í röð.

Díana Dögg Magnúsdóttir og Vigdís Birna Þorsteinsdóttir skoruðu báðar sjö mörk fyrir Val og Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði fjögur fyrir Selfoss. Valur er með 26 stig, tveimur meira en Haukar sem eiga leik til góða. Selfoss er í 6. sæti með sjö stig í fallbaráttu.

Á Seltjarnarnesi vann Stjarnan gríðarlega öruggan sigur á Gróttu 36:22. Staðan í hálfleik var 18:11 og var sigurinn aldrei í hættu. Sólveig Lára Kjærnested átti stórleik fyrir Stjörnuna og skoraði 12 mörk. Savica Mrkic gerði sex mörk fyrir Gróttu. Stjarnan er í 5. sæti með 17 stig en Grótta í næstneðsta sæti með fjögur stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert