Guðmundur getur komið okkur í fremstu röð

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ, til vinstri.
Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ, til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum mjög ánægðir með þessa ráðningu. Við teljum að Guðmundur geti komið okkur aftur í fremstu röð, en það er verkefni sem getur tekið tíma," sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í samtali við mbl.is í dag, fljótlega eftir að nafni hans, Guðmundur Guðmundsson var tilkynntur sem næsti landsliðsþjálfari karlaliðsins. 

„Ég vil að við komust aftur á svipaðan stall og þegar við vorum upp á okkar besta. Við viljum vera á meðal átta bestu liða Evrópu og í heimi."

Hann hrósaði forvera Guðmundar, Geir Sveinssyni fyrir sitt framlag í kynslóðaskipti landsliðsins á síðustu árum.

„Mennirnir sem hafa verið að vinna í þessum breytingum hafa gert vel. Það má hrósa Geir fyrir hversu duglegur hann hefur verið að koma nýjum mönnum inn og gefið þeim tækifærið og reynsluna. Nú þurfum við að byggja ofan á það. Bæði ungir leikmenn og þeir sem eru orðnir aðeins eldri; 22-28 ára, geta komist í landsliðið, þó þeir hafa ekki spilað þar áður. Við þurfum að velja bestu blönduna."

Guðmundur var með samningstilboð frá Barein. Var erfitt að sannfæra hann um að taka við íslenska landsliðinu í þriðja skipti? 

„Nei, ég myndi ekki segja það. Ég fann strax að hann hafði áhuga á verkefninu. Það var eitthvað í þessu sem heillaði meira en í Barein, það tengist handboltanum. Það er meiri metnaður í að koma liðinu okkar í fremstu röð en að koma Barein lengra, það er mín skoðun."

Geir áfram ef Guðmundur hefði sagt nei

Ekkert hefur náðst í Geir Sveinsson síðustu daga, Guðmundur lýsti yfir vonbrigðum sínum með það.

„Það er kannski ekki furðulegt. Mér þykir leitt að ná ekki til hans. Ég reyndi bæði í gærkvöldi og í dag. Ég taldi það okkar skildu að greina frá þessari ráðningu, þó ég hafi ekki náð í Geir. Ég vil að það komi skýrt fram að samningur Geirs rennur út. Við segjum honum ekki upp. Geir gerði vel hjá okkur og á þakkir skilið. Þetta var hins vegar niðurstaðan þegar við vorum að meta á milli tveggja frábærra þjálfara."

Hefði Geir haldið áfram ef Guðmundur hefði hafnað tilboðinu? 

„Þá hefðum við örugglega farið í viðræður við Geir. Þeir voru þeir einu sem voru á lista hjá okkur," sagði Guðmundur að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka