Sluppu í Höllinni í Höllina

Teitur Örn Einarsson skoraði 11 mörk fyrir Selfyssinga.
Teitur Örn Einarsson skoraði 11 mörk fyrir Selfyssinga. mbl.is/Árni Sæberg

Selfyssingar sluppu með skrekkinn í Laugardalshöllinni í kvöld þegar þeir unnu nauman sigur á 1. deildarliði Þróttar, 27:26, í átta liða úrslitum Coca Cola bikars karla í handknattleik. Þar með sluppu þeir áfram og í undanúrslitin sem fara fram í Laugardalshöllinni í næsta mánuði.

Þróttarar, sem eru í fimmta sæti 1. deildar, voru yfir í hálfleik, 14:13, og veittu úrvalsdeildarliðinu geysilega harða keppni allan tímann. Selfoss er í fjórða sæti úrvalsdeildar og hefur unnið 11 af 16 leikjum sínum þar í vetur.

Staðan var 19:16 fyrir Þrótt þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og 25:25 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Spennan hélst fram á lokasekúndur þar sem Selfoss hafði að lokum eins marks sigur.

Þróttarar fengu dauðafæri til að tryggja sér sigurinn í síðustu sókninni. Markvörður Selfyssinga, Sölvi Ólafsson, varði af línunni, boltinn hrökk til Árna Steins Steinþórssonar sem skoraði þvert yfir völlinn frá eigin punktalínu. Dómararnir ráðfærðu sig um hvort leiktíminn hefði verið liðinn eða ekki - þeirra niðurstaða var að boltinn hefði farið yfir línuna áður en lokaflautið gall og þar með var sigurinn Selfyssinga en Þróttarar sátu eftir með sárt ennið.

Teitur Örn Einarsson var einu sinni sem oftar í aðalhlutverki hjá Selfyssingum og skoraði 11 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 6 og Haukur Þrastarson 4.

Aron Valur Jóhannsson skoraði 6 mörk fyrir Þrótt og Aron Heiðar Guðmundsson 5.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert