Selfoss sótti mikilvæg tvö stig í Breiðholtið í kvöld eftir 37:25-stórsigur á ÍR í 17. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.
Selfyssingar eru í harðri baráttu um heimavallarréttinn fyrir úrslitakeppnina þegar stutt er eftir af mótinu og þeir fóru vel af stað í kvöld, skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum kvöldsins og héldu góðri forystu til enda.
Munurinn var orðinn átta mörk í hálfleik, 21:13, en Haukur Þrastarson og Einar Sverrisson voru með sex mörk hvor í hléi. Hjá ÍR-ingum var varnarleikurinn arfaslakur og í kjölfarið lítið sem engin markvarsla. Á hinum enda vallarins voru heimamenn svo sjálfum sér verstir og gerðu mörg einstaklingsmistök í sóknum sínum.
ÍR-ingar löguðu varnarleikinn í síðari hálfleik og varði Grétar Ari Guðjónsson oft og tíðum frábærlega. Aftur á móti urðu þeir hreinlega enn stirðari í sókn, komust í fá fín færi og mættu þá Sölva Ólafssyni sem varði nokkrum sinnum vel í marki Selfoss, 11 skot alls.
Selfyssingar hófu síðari hálfleikinn einnig rólega en sigurinn var aldrei í hættu. Teitur Örn Einarsson endaði leikinn með 10 mörk og kom Einar Sverrisson á eftir honum er Selfoss vann gífurlega sannfærandi 12 marka sigur.
Selfoss fer upp fyrir Val í 3. sætið, nú með 24 stig og tekur þar með skref í átt að því að enda í fjórum efstu sætunum. ÍR-ingar eru áfram í 7. sæti með 15 stig.