Sigvaldi fer til norsku meistaranna

Sigvaldi Björn Guðjónsson í búningi Århus. Hann flytur til Elverum …
Sigvaldi Björn Guðjónsson í búningi Århus. Hann flytur til Elverum í Noregi í sumar. Ljósmynd/Ole Nielsen

Handknattleiksmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við norska meistaraliðið Elverum. Félagið skýrði frá þessu fyrir stundu. Sigvaldi Björn sem nú leikur með Århus Håndbold gengur til liðs við norsku meistarana í sumar eftir þriggja ára veru hjá Árósarliðinu.

Elverum hefur borið ægishjálm yfir önnur handknattleikslið í Noregi undanfarin ár og hefur m.a. leikið í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð. Elverum er í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir þrátt fyrir að hafa leikið tveimur leikjum færra en næsta lið fyrir neðan.

Sigvaldi Björn verður 24 ára gamall í sumar. Hann hefur búið í Danmörku frá 12 ára aldri en hóf æfingar með HK í Kópavogi sem barn áður en fjölskylda hann flutti til Danmerkur. Þegar foreldrarnir fluttu heim varð Sigvaldi Björn eftir úti þar sem hann hefur stundað nám og vinnu samhliða handknattleiksiðkun. Hann hefur einnig leikið með Vejle og Bjerringbro/Silkeborg í Danmörku.

„Mér stóð til boða nýr samningur hjá Århus en fannst vera kominn tími til að reyna eitthvað nýtt, fara út úr vissum þægindaramma sem ég er í þessar mundir og taka nýtt skref til að þróast áfram sem handboltamaður,“ sagði Sigvaldi Björn í samtali við mbl.is. 

Ítarlega verður rætt við Sigvalda Björn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert