„Þetta eru mikil vonbrigði að hafa tapa þessum leik þar sem það var mikið í húfi fyrir okkur,“ sagði Karen Helga Díönudóttir leikmaður Hauka við mbl.is eftir tapið gegn Stjörnunni í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld, 25:21.
Haukar gátu með sigri komist upp að hlið Reykjavíkurliðanna Fram og Vals í toppsæti deildarinnar en Stjörnukonur reyndust sterkari aðilinn og unnu fjögurra marka sigur.
„Það er bara eins og við höfum ekki þolað pressuna. Þrátt fyrir þetta tap þá vil ég ekki afskrifa að við vinnum deildarmeistaratitilinn. Þetta getur ennþá fallið okkar megin. Við þurfum bara að vinna þá tvo leiki sem við eigum eftir og sjá hverju það skilar,“ sagði Karen en Haukar mæta einmitt Fram og Val í tveimur síðustu umferðum deildarinnar.