Sætur sigur Selfyssinga í Eyjum

Harður slagur í leiknum í Eyjum í kvöld.
Harður slagur í leiknum í Eyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Selfyssingar eru komnir í annað sæti Olísdeildar karla í handknattleik eftir góðan sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld, 36:35.

Selfyssingar eru þar með komnir með 30 stig í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir FH-ingum sem mæta ÍR annað kvöld. ÍBV er með 28 stig í þriðja sæti en getur misst það til Vals síðar í kvöld.

Eyjamenn voru lengi vel í góðri stöðu, náðu um tíma sex marka forystu og staðan í hálfleik var 19:14, þeim í hag. Selfyssingar voru hins vegar búnir að minnka muninn í eitt mark þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. ÍBV komst í 27:23 og 28:24 en þá tóku Selfyssingar góðan kipp og jöfnuðu, 29:29, þegar sjö mínútur voru eftir.

Í kjölfarið komust þeir í 32:30 og síðan 34:31 þegar þrjár mínútur voru eftir. Róbert Aron Hostert minnkaði muninn fyrir ÍBV í 35:34 þegar hálf mínúta var til leiksloka en Teitur Örn Einarsson tryggði sigur Selfoss í kjölfarið, 36:34. Engu breytti þótt Grétar Þór Eyþórsson lagaði stöðuna fyrir ÍBV í lokin.

Einar Sverrisson skoraði 8 mörk fyrir Selfyssinga, Teitur Örn Einarsson og Atli Ævar Ingólfsson 7 hvor. Agnar Smári Jónsson skoraði 11 mörk fyrir Eyjamenn og Róbert Aron Hostert 7.

ÍBV 35:36 Selfoss opna loka
60. mín. Grétar Þór Eyþórsson (ÍBV) skoraði mark 11 sekúndur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert