Arnór Atla snýr sér að þjálfun

Arnór Atlason og Guðjón Valur Sigurðsson
Arnór Atlason og Guðjón Valur Sigurðsson mbl.is/Golli

Arnór Atlason, einn af ólympíuverðlaunahöfum Íslands í handknattleik, leggur skóna á hilluna í sumar og gerist aðstoðarþjálfari danska liðsins Álaborgar þar sem hann leikur nú. Félagið hefur fundið eftirmann Arons Kristjánssonar sem ákvað að segja upp og flytja heim í sumar. 

Stefan Madsen mun taka lið Álaborgarliðinu í sumar og Arnór verður honum til aðstoðar. Arnór mun ljúka þessu tímabili sem leikmaður liðsins en ætlar að láta gott heita að því loknum. Aron mun stýra liðinu út keppnistímabilið og Janus Daði Smárason leikur einnig með liðinu. Þá mun Ómar Ingi Magnússon bætast í leikmannahópinn í sumar. 

„Ákvörðunin um að hætta að spila var ekki auðveld fyrir mig en þegar mér bauðst þetta tækifæri þá var spurning hvort þetta væri kannski rétti tíminn. Lengi hefur blundað í mér að reyna fyrir mér í þjálfun og þess vegna er draumur að fá tækifæri eins og þetta. Fyrst ætla ég að njóta þess að spila mína síðustu leiki en nýr kafli tekur við hjá mér í sumar,“ er haft eftir Arnóri á heimasíðu félagsins. 

Arnór verður 34 ára gamall í sumar. Hann hóf ferilinn í meistaraflokki með KA en hélt síðan í atvinnumennsku til Þýskalands þegar hann samdi ungur við Magdeburg. Arnór lék lengi í Danmörku með FCK og AG í Kaupmannahöfn. Þá hélt hann til þýska stórliðsins Flensburg og þaðan til Frakklands og lék með St. Raphael en lýkur sem sagt ferlinum hjá Álaborg. Arnór á að baki 203 landsleiki og lék sinn 200. A-landsleik nú í janúar. Hann var í landsliði Íslands á ÓL í Peking 2008 eins og áður segir og var í lykilhlutverki þegar Ísland vann til bronsverðlauna á EM í Austurríki 2010.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert