Allt er komið í hnút á toppnum í Olís-deild karla eftir sigur Selfyssinga á FH-ingum, 34:29, þegar liðin áttust við í Kaplakrika í næstsíðustu umferð deildarinnar í kvöld.
ÍBV, Selfoss og FH eru öll jöfn með 32 stig á toppi deildarinnar og það ræðst því í lokaumferðinni á miðvikudaginn hvaða lið stendur uppi sem deildarmeistari. Eini möguleiki FH á að verða deildarmeistari er sá að liðið vinni Stjörnuna í lokaumferðinni og hvorki ÍBV né Selfossi takist að vinna sína leiki, gegn Fram og Víkingi.
Leikurinn var gríðarlega hraður og skemmtilegur og sóknarleikurinn á köflum frábær af hálfu beggja liða. Selfyssingar voru einu mark yfir í hálfleik en í þeim síðari náðu þeir frumkvæðinu og voru þetta 2-4 mörkum yfir allan hálfleikinn. FH-ingar gripu til þess ráðs að spila með aukamann í sókninni allan seinni hálfleikinn en það kom í bakið á þeim nokkrum sinnum þar sem Selfyssingar skoruðu nokkur mörk í autt markið.
Teitur Örn Einarsson var bestur í annars frábærri liðsheild Selfyssinga en virkilega gaman hefur verið að fylgjast með þessu unga liði undir stjórn Patreks Jóhannessonar í vetur.
Einar Rafn Eiðsson og Birkir Bragason markvörður voru bestu menn FH-inga í leiknum sem hafa heldur betur gefið eftir á lokasprettinum í deildinni.